fimmtudagur, júlí 21, 2005

Eintóm kæti

Í mestu makindum var ég, eðli mínu samkvæmt, að vanda mig við það að haldast pirruð og svekkt út í tilveruna, í hádeginu. Þessi dagur var ekkert frábrugðinn öðrum dögum nema hvað hann var heitari en margir - sem var nú alls ekki til að bæta stöðuna. Skapbræðin dundi á fjarstýringunni og hugurinn leitaði út, bara eitthvert út - ekki voru nein teikn þess á lofti að dagurinn kúveltist neitt.

Ó, hvað manni getur skjátlast! Hver gat búist við því að innan um bréfalúguna á Hafnargötunni myndi detta pakki frá sjálfum diskókónginum? Það er ekki bara að ég hljóti að vera komin á lista grúbb-pía heldur á ég núna ekki einn heldur TVO spánýja Abbababb diska. (Ef allir brygðust nú við eins og Kalli þá held ég að það sé vissara að taka það fram hér og nú að ég hefði ekkert á móti nótt með Hilmi Snæ.)

Nú vantar fátt upp á draumaeignirnar mínar, ég á hosurnar, tvíþumlungana, sjóhattinn og nú síðast Abbababb diskinn. -Þessi dagur er ekkert vondur!