Dúna logn
Að spyrja til veðurs á þessum slóðum fer að verða jafn kjánalegt og að vakna til að vita með veður á krít. Ég er hætt að kíkja út um gluggann áður en ég fer út, ég bara skoppa út í sólskinið berleggjuð og óhress. Hver einasta íþróttaflík sem ég á er komin út í glugga hjá mér til að meina sólarfrekjunni aðgang að svefnvana glyrnum mínum, ég hef ekki farið í buxur í þrjár vikur og ekkert lát virðist vera á þessari tíð. Samkvæmt öllu ætti ég að vera ósátt við lífið núna, veðrið ætlar mig lifandi að drepa, svo sjaldan sem ég sofna dreymir mig ýmist vitleysu eða óskapnað og blessað einkalíf mitt forðast ég eins og heitan eldinn enda statt í dýpri skít en ég hef áður þekkt. Samt er logn. Ég er skaplaus eins og frelsað gamalmenni, ég er stóísk og sest út í sólina til að lesa bók, eins og ég sé búin að ná sátt við tilveruna og máttleysi mitt í gangi lífsins. Á föstudaginn fékk ég verkefni í hausinn í vinnunni sem ég sá ekki fyrir endann á og hefði auðveldlega getað látið mér hendur fallast og aldrei komist yfir það, á þriðjudegi var komið logn og í dag hef ég ekkert fyrir stafni. Að mér ætti að sækja felmtur þegar svona dauðalogn heltekur mig, aðeins eitt getur fylgt þessu - en ég er sátt, ég er róleg og óttalaus.