Fjarlægðin gerir fjöllin blá...
eins og þar stendur. Marga andvökunóttina hef ég legið og hugsað heim með ögn af söknuði og heimaelsku í hjarta. Ekki hef ég nú verið stödd hér í 'annríkinu' lengi en verð ég þó að segja að andvökunæturnar þar sem ég hef legið og óskað mér út eru sennilega óðum að ná tölu hinna. Ekki svo að skilja að það sé ekki alltaf gott að koma heim og hitta sína nánustu en sæla endurfundanna takmarkast við þá sjálfa og rennur furðufljótt af manni. Aðgerðarleysið hér í víkinni er að gera út af við mig og get ég með sanni sagt að það er fallið mér í ómynni hvenær ég svaf síðast svefni hinna réttlátu eftir vel unnið verk.
Jólin hafa nú engu að síður verið hin sæmilegustu í skugga aðstæðna þó og eftir því heldur í rólegri kantinum. Allir hnappar af hverri einustu flík í minni eigu hafa sprungið og eru endanlega komnir til andskotans ásamt heilsu minni og vexti.
Harla fátt hefur á daga mína drifið og verð ég að segja að ég skil lítið í tíðum sneiðum um leti mína við að stinga niður penna. Það segja mér frómir menn að það sé bölvuð vitleysa að vera að opna kjaftinn þegar maður hefur ekkert að segja og mér finnst óraunhæft að ætlast til þess að kvennmaður geti haft eitthvað markvert til málanna að leggja oftar en einu sinni í mánuði. Ef ég reyndi að halda því fram að þetta væri málefnaleg síða væri það vissulega helber lygi en allt má nú skýla sér á bak við.
Annast sit ég sveitt við að skrifa óborganlega afleitar ritgerðir og ætla að halda því áfram eitthvað fram eftir kvöldi.