Einiber –Reyniber
Einiber – er það eitthvað sem er til? Ég veitti því athygli á síðasta jólaballi þegar við gengum í kringum berjarunn, hvers kyns ber svo sem þar voru að finna, að R-ið í reyniber var nú eitthvað veikt, raunar er ég ekkert frá því að þetta hafi verið mitt sóló-R. Á ég virkilega að trúa því að alla tíð hafi ég verið að syngja þetta margrómaða jólalag vitlaust? Er þetta eins og með stelpuna sem saknaði smáfolans handan við hafið í my bonny is over the ocean? Er ég að segja Reyniber eins og hún sagði Pony? Þetta minnir mig líka á hvað textinn við hið hárómantíska lag Undir bláhimni gat vafist fyrir mér. Ekki gat ég fyrir nokkra muni skilið af hverju það þótti eitthvað við hæfi að gaula um ófagra mær sem barst í arma einhvers undir bláhimni, það var ekki fyrr en eftir margra ára vangaveltur sem ég skildi loksins hvað var fallegt við þetta, þegar ég las textann af blaði og mærin var orðin rósfögur. Það eru til svo fjölmörg dæmi þar sem heyrnin villir svoleiðis fyrir manni að maður áttar sig ekki á því hvað maður getur verið að gera bjánalega hluti þegar maður, aleinn, syngur sinn eigin texta, eins og við rótgróin jólalög.
Önnur dæmi um svona textavillur eru svo sem skiljanleg. Eins og þegar einhver söng „bróðir minn er að slá mig” við eitthvað lag sem sennilega var flutt af landi og sonum eða öðrum eins „textafrömuðum”. Við sama lag söng ég „blómin ráðast á mig” og taldi ég það alveg hárrétt þar til ég fletti textanum upp á netinu, nú í dag, til að hafa mín mál hér á hreinu. En ég get svo sem bara haldið því áfram því mér finnst rétti textinn síður fallegur, það er nú ekki eins og „lóðin hlaðast á mig” sé eitthvað sennilegra til að falla inn í þessa ljúfu melódíu þeirra, eða hvað það nú var það blessaða lag. Og þó, það heitir víst Vöðvastæltur en skítt með það...
Klassískt dæmi um lag sem er alveg kjörið til að syngja vitlaust fram í hoppandi ellina en smellurinn Final Countdown. Ég get ekki munað hvað ég hef verið með margar útgáfur af því „alveg á hreinu”. Til dæmis var ég lengi vel „heading for penis” og gargandi hástöfum „it’s a fire downtown” veit ekki alveg hvaða Freudísku óskhyggju má lesa úr þessu. Með tímanum þróaðist þetta í final downtown og þaðan sennilega í rétta útgáfu, en penis hvarf seint – skammarlega seint.
Það er þó ákveðin hljómsveit sem hlýtur að eiga met í því að hafa sent frá sér lög sem sungin eru vitlaus trekk í trekk í trekk – Sálin hans Jóns míns. Kannski spilar það inn í, hjá mér í hið minnsta, að ég var aldrei hrifin af þeim og hlustaði því kannski aldrei nægjanlega vel á þá til að læra blessaða textana þeirra. Ég hef sungið álfa í stað ára (þar til ég fékk leiðréttingu í síðustu viku en þetta eru svo sem andskoti lík orð svo enginn ætlar að gera veður út af því vona ég), flæmingjamyndir í staðfermingamynda (þar til ég áttaði mig á því að það er enginn að býtta út flæmingjamyndunum sínum), kústinn í staðinn fyrir Guðstein (finnst nú reyndar hvorugt eitthvað vera að gera góða hluti), fullnægingu í staðinn fyrir friðþægingu (kannski enn eitthvað freudískt að gera vart við sig) sykur í staðinn fyrir silfur (aftur afar lík orð) og eftirlaun í staðinn fyrir rekjunaut (eina skýringin sem ég kann á þessu er sú að ég sé bara ekkert sammála því að öll von um rekkjunaut sé úti klukkan 3). Sérstaklega ömurlegt lag, svona textalega séð, þótt vissulega sé gaman að dansa við það er Hei kanína. Þessi texti er bara ekki neitt magnaður svo hvern skal undra þótt það sé kallað ótrúlegustu nöfnum, það er sennilega ástæða fyrir því að ég hélt lengi að það héti Feita Nína -ég þekki hundrað manns sem kalla lagið þetta.