sunnudagur, desember 28, 2003

er ekki mál til komið að pakka?

Ég settist niður og ritaði með blóði míns hjarta bréfið sem hugsanlega getur fleytt mér landa á milli. Þegar þú býrð í rotnandi holu þar sem svo virðist sem fáránlega margir þættir sameinist um að drekka upp sálu þína og fátt, stundum ekkert, sé til staðar til að vega upp á móti og þér finnst oft á tíðum sem þú þekkir ekki lengur manneskjuna inni í kollinum á þér, er þá ekki mál til komið að fara að hugsa um að hypja sig? Þegar þú hefur berháttað þig í fertugasta sinn fyrir manneskjunni sem gæti snúið holunni til betri vegar og færð enn enga vissu, er þá ekki mál til komið að fara að hugsa sinn gang? Þegar þú hefur sannfærst um að tálsýnin sem þú heldur í tangarhaldi sé sennilega ekkert annað því enginn leggur neitt að mörkum til að gera hana trúanlega, ertu þá ekki á röngum stað? Þegar aðilinn sem þú getur hugsað þér að doka við fyrir gefur ekkert út á það hvort hann vilji að þú farir eða verir, er þá ekki bara mál til komið að pakka? Ef ég hef enga trú á því að ég geti orðið meira einmanna alein í landi þar sem ég þekki engan en ég er heima hjá mér, hvað í fjandanum er ég þá að hugsa?