Fan-Bloody-Tastic
Jú það kom að því. Loksins kynntist ég öðrum nátthrafni, mér til kátínu og léttis. Einhver til að spjalla við á löngum andvökunóttum og til að grallarast eitthvað með þegar allir aðrir sofa.
Klukkan er rúmlega sex og ég var að koma heim. Fannst það frábær hugmynd þar sem ég sat í herberginu mínu og hataðist út í Simon að skreppa á rúntinn. Að sjálfsögðu vildi Ryan fá að koma með, enda andvaka á hinni línu skilaboðaskjóðunnar. Ég held að þetta hafi verið einn af viðburðarríkustu rúntum lífs míns. Til að byrja með tókum við rúnt inn í Ballymoney, sem er afar áhugaverður rónabær. Þar kenndi nú ýmissa grasa; sáum við m.a. par kyssast á ákaflega ófágaðan hátt á götuhorni, þar til daman sleit kossinum og gerði sér lítið fyrir og ældi á guttann. Eins sáum við hóp bólugrafinna unglinga fljúgast á í strætóskýli og afar drukkinn klæðskipting detta ítrekað á sama búðargluggann. Mér þótti mikið til koma en var engu að síður þess fegnust þegar ég rúllaði út fyrir bæjarmörkin og aftur í átt að Coleraine.
Þegar aftur var komið í siðmenninguna fannst Ryan tilvalið að gerast leiðsögumaður um æskuslóðir sínar og fékk ég sögu við hvert götuhorn. Við tókum sveig að gamla barnaskólanum hans þar sem við rötuðum í merkilegar ógöngur og ætluðum við aldrei að finna leiðina út af þeirri skólalóð. Við vorum nú samt ekki mikið að stressa okkur á því, allavega ekki Ryan sem stökk út og stal reiðhjóli sem hann svo hálf flaug af á meðan það sveif ofan í nálægan gám. Loksins fann ég leiðina þaðan út og verð ég að segja eins og er að við tók alls ekki sú fegursta sjón sem ég get ímyndað mér. Úti í glugga á þriðju hæð í fjölbýlishúsi stóð maður; frekar digur, loðinn og lasaralegur - já, kannski að bæta því við að hann var KVIKNAKINN. Ég stoppaði bílinn um stund til að varpa öndinni og reyna að róa hláturtaugarnar sem voru vel strekktar.
Eftir þetta fannst mér nóg komið af herlegheitunum svo við tókum rúnt á kunnuglegar slóðir fyrir mig. Að sjálfsögðu lá leiðin niður á strönd. Undir stjörnubjörtum himni var eitthvað svo tilvalið að stoppa bílinn í fjörunni. Njóta náttúrunnar og spjalla svolítið. Það lítur út fyrir að náttúran hafi ekki notið okkar nærveru, tjah, eða jafnvel notið hennar einum of mikið. Þann stutta tíma sem við stöldruðum þarna við skall á háflæði og framhluti bílsins sökk á bólakaf í þennan viðbjóðslega gula sand, sem örfáum mínútum áður var meginstólpi þessa rómantíska umhverfis. Á meðan við reyndum að losa bílinn fór að sjálfsögðu að helli rigna, sem var hvorki að hjálpa til með hitastig eða möguleikana á að ná bílnum upp úr forinni. En af því að þetta var víst ekki nógu slæmt og ónýtt fólk sem kann ekki að sofa á nóttunni á ekkert gott skilið þá skall á haglél á stærð við hafnarbolta.Greeeaaaaat!
Við leituðum skjóls inni í bílnum á meðan, sjálfsagt senn marin og blá eftir þessa ógeðslegu bolta. Ég fór að reyna að hugsa með mér hvað maður tæki til bragðs væri þetta snjór. Sá fyrir mér einhverskonar planka í hyllingum sem hvergi voru þó nálægir. Holurnar sem bílinn sat í virkuðu ekki svo djúpar svo mér datt í hug að bregða á það ráð að troða skónum mínum undir framhjólin. Mér til varnar skal það tekið fram að, eins heimskulega og það hljómar, þá leit allt út fyrir að það myndi virka. Það er að segja alveg þar til stór og feit alda mætti á svæðið og skolaði skónum mínum út á hafsauga.
3 tímar og hvorki ráð né nokkur velgja. Ég veit ekki hvort það var taugaveiklun eða bara kæruleysið sem fylgir því að vera fullviss um glötun sína sem réði því að ég hló allan tímann. Enn var flóðið þó að hækka og útlitið orðið heldur svart. Það var ekkert í stöðunni annað en að játa sig sigraða og sit ég nú uppi í rúmi eftir að hafa hlustað á leigubílstjóra hlægja að þessum svaðilförum og bið til guðs og vona að bíllinn minn verði enn á ströndinni á morgun.
Eitt er víst að dæmist Ryan mér til framtíðareignar (það er að segja ef hann finnur sér ekki einhverja á jeppa eða sem ákveður að hlusta ekki á hann þegar hann stingur upp á að demba bílnum í kviksyndi) þá verður þetta frábær saga til að segja barnabörnunum. When Dumbo met Doofus.